Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
6. janúar 2012

Viðtal við Drífu Gestsdóttur hundaþjálfara og Huld Magnúsdóttur, forstjóra Miðstöðvarinnar.

Um 700 lögblindir hér á landi

Hér á landi eru um 700 manns lögblindir, að sögn Huldar Magnúsdóttur forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Lögblindir teljast þeir sem hafa innan við tíu prósenta sjón.

"Ef staðan hér væri sambærileg miðað við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum ættum við að vera með fimmtán til tuttugu leiðsöguhunda á hverjum tíma," segir Huld.

Miðstöðin hefur sett af stað verkefni til að kaupa og þjálfa leiðsöguhunda á Íslandi í stað þess að kaupa þá frá útlöndum. Áætlað er að skila tveimur leiðsöguhundum á ári.

Fjórir nýir leiðsöguhundar fyrir blinda eru nú í þjálfun hér á landi. Alls eru fimm hundar þegar í slíkri þjónustu. Ef miðað er við hin Norðurlöndin ættu hundarnir hér að vera fimmtán til tuttugu því um 700 manns eru lögblindir.

Hundaþjálfarinn Drífa Gestsdóttir þjálfar nú fjóra leiðsöguhunda sem fá það hlutverk, uppfylli þeir kröfur, að leiða lögblinda notendur.

Drífa starfar fyrir þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda.

Á landinu eru nú aðeins fimm leiðsöguhundar og brýn þörf fyrir fleiri. Hundarnir, sem eru "í skóla" hjá Drífu, eiga því eftir að koma að góðum notum og auðvelda líf verðandi notenda sinna til mikilla muna.

Drífa hóf störf hjá Blindrafélaginu þegar fjórir af þeim fimm hundum sem nú vinna með blindum komu frá Noregi hingað til lands fyrir þremur og hálfu ári. Hún segir að með komu þeirra hafi í raun orðið vakning að því leytinu til að fólk hafi áttað sig á hversu gagnlegir leiðsöguhundar geta verið.

Fullþjálfaður leiðsöguhundur kostaði rúmar sjö milljónir króna fyrir þremur til fjórum árum þegar hann var fluttur inn frá Noregi.

Hundarnir sem Drífa þjálfar nú eru allir hreinræktaðir og fæddir hér á landi.

"Þegar hvolpur kemur til mín sé ég um að hann fái öruggt og gott uppeldi," lýsir Drífa þjálfuninni.

"Umhverfisþjálfun er mikilvæg. Ég er með hundinn innan um margt fólk. Hann lærir strax að heilsa hvorki ókunnugum né öðrum hundum. Í leik má ekki venja hann á að elta bolta, leita hluta eða rekja slóðir. Athyglin á einungis að vera bundin við notandann."

Þjálfun hundanna við að leiða mann upp tröppur, fram hjá grindverkum, inn í lyftur og fleira á þeim nótum fer þannig fram að þjálfarinn stoppar til dæmis alltaf við tröppur. Þetta kemst fljótlega upp í vana hjá hundinum og hann fer að taka frumkvæðið með tilheyrandi hrósi. Þá er hundurinn alltaf vinstra megin við þann sem hann leiðir. Hundinum er kennt að þegar hann er með leiðsöguhundabeislið á sér er hann tveir metrar á hæð og tveir metrar á breidd. Maður og hundur eru þjálfaðir saman og áhersla lögð á tilteknar gönguleiðir.

Viðtalið við Drífu á vísi.is
 

Til baka