Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
15. mars 2012

Tæknimolar héðan og þaðan

Nú eru ár og aldir síðan tæknimoli hefur litið dagsins ljós á vefmiðli Miðstöðvarinnar, eða annars staðar. Við erum að vinna í því að tryggja að þið þurfið ekki að vera molalaus mánuðum saman í framtíðinni, en getum engu lofað öðru en að okkar tími muni koma. Til að bæta úr molaleysinu bjóðum við ykkur hér með upp á bland í poka, enda jólin að nálgast.

Hér getið þið lesið um Jaws 13, bættan punktaletursskjástuðning í NVDA 2011.2, ókeypis skjálesara frá Nokia, uppfinningu frá Stanford sem breytir snertiskjá í punktaleturslyklaborð og, síðast en ekki síst, gervileiðsöguhunda. Ef ykkur finnst ekkert af þessu spennandi, þá er kannski kominn tími til að lesa eitthvað annað, símaskrána til dæmis.

Jaws 13.

Nú er komin út en ein útgáfan af Jaws skjálesaranum, sú þrettánda í röðinni, hugsanlega gætum við kallað hana Kertasníki.
Helsta nýjungin sem prýðir þennan hreint ágætis skjálesara er það sem þeir kalla „Convenient OCR“ eða hentugt skann. Með þessu er átt við að Jaws getur nú skannað myndir á skjánum (t.d. í PDF skrám sem eru mynd, þegar verið er að setja upp hugbúnað og uppsetningin byggir á mynd, myndir á vefsíðum með texta, myndir af vallista í DVD forritum o.s.frv.). Ef á myndinni finnast stafir getur notandi lesið þá svipað og alla aðra stafi á skjánum með aðstoð Jaws.
Freedom Scientific halda því fram í kynningarefni að Jaws sé fyrsti skjálesarinn sem býður upp á þessa nýjung, þó réttara sé að Cobra skjálesarinn frá Baum hafi í raun boðið upp á þetta um nokkurt skeið, þó sá skjálesari hafi aldrei náð neinum verulegum vinsældum. NVDA skjálesarinn kemur til með að bjóða upp á þennan möguleika á næsta ári, ef áætlanir þar á bæ ganga eftir.

Burtséð frá því hver átti hugmyndina fyrst er þetta sniðug hugmynd og tiltölulega einfalt að framkvæma skannið með Jaws.
Maður styður á Jaws-lykilinn og orðabil, stafinn „o“ (fyrir OCR scan“ og svo velur maður w fyrir gluggann (window), s fyrir skjáinn (screen) eða c fyrir hlut undir bendli (control).

Yfirleitt er best að velja „w“ því Jaws reynir að skanna virka gluggann og leitar sérstaklega að texta á öllum myndum í honum. Svo er einungis sá texti birtur, en ekki texti sem Jaws getur nálgast á annan hátt. Ef texti finnst í skanni tilkynnir Jaws það og skiptir sjálfkrafa yfir í yfirferðarbendilinn þ.e.a.s. Jaws bendilinn. Þar getur notandi lesið texta af hjartans list, þó hann geti reyndar ekki klippt textann og límt annars staðar. Ef textinn er á mynd sem hægt er að smella á, og þar stendur „smellið hér til að opna þessa síðu“ þá er hægt að gera það með því að nota músaherminn í Jaws.

Áður en menn hoppa hæð sína af gleði, sem er auðveldara ef menn eru smávaxnir, og halda að nú þurfi ekki lengur að nöldra í öllum sem senda frá sér texta á myndrænu formi, verð ég að hryggja þá, því skannið tekst alls ekki alltaf. Gæði textans fer eftir upplausn á myndinni sem textinn er á, ef upplausnin er of lág fæst ekkert af viti út úr skanninu. Texti á skjá er oft í mun verri upplausn en útprentun á blaði.

Jaws skannar líka bara hluti sem eru sýnilegir á skjánum. Ef verið er að skanna PDF skjal sem er mynd eru einungis nokkrar línur af skjalinu lesnar. Það dugir líklegast til þess að átta sig á innihaldi skjalsins, en er yfirleitt ekki nóg til þess að geta lesið skjalið í heild sinni. Í Adobe Reader ber einnig að hafa í huga að glugginn þarf að vera í fullri stærð (maximized) og styðja þarf á ctrl-1 til þess að myndin sé í réttri stærð (ekki sé zoomað inn á hana).
Þessi lausn dugar engan veginn til þess að lesa „CAPTCHA“ þ.e.a.s. myndir með brengluðum texta sem notandi þarf að slá inn í öryggisskyni til að komast inn á vefsíður. Slíkur texti er gerður með það í huga að tölvur geti ekki skilið hann, t.d. með því að hafa stafina óskýra, hallandi og með krúsídúllum. Tilgangurinn er jú sá að tryggja að einungis notandi sem er ekki tölva geti skilið textann.

Undirritaður hefur notað nýja Jaws skannið nokkrum sinnum og hefur náð einhverju af viti úr því í u.þ.b. helmingi tilfella. En virknin lofar góðu og búast Freedom Scientific við miklum framförum þegar þeir átta sig betur á hvernig er hægt að nota þessa nýju tækni betur.
En þeir hjá Freedom Scientific voru greinilega í góðum gír í sumar því Jaws 13 býður upp á fleiri nýungar, þ.á m. eina einstaklega netta. Kallast hún töfluhamur(„table layer“.)

Þegar menn eru staddir í töflu, hvort sem hún er á vefsíðu, í PDF skjali eða í Word skjali, geta menn studd á Jaws lykilinn og orðabil, síðan á bókstafin „t“.
Nú geta menn ferðast um töfluna með örvalyklunum einum saman. Jaws les ávallt titil dálks sem menn eru staddir í og hægt er að láta Jaws lesa hnit reitsins sem menn eru staddir í ef þeir vilja.

Ef þið viljið skoða textann í reitnum betur, þá styðja menn bara á „escape“ eða lausnarlykilinn, og eru þá komnir aftur í venjulegan Jaws ham. Það er hreint ótrúlegur munur að skoða stórar töflur með mörgum dálkum á þennan hátt, og finnst undirrituðum þetta í raun í fyrsta skipti sem hægt er að skoða stórar töflur utan Excel forritsins.

Hægt er að vista Jaws,stillingar fyrir einstakar vefsíður, og Jaws man stillingarnar næst þegar síðan er heimsótt. Einnig er nú hægt að velja hvort breytingar á Jaws stillingum gangi til baka þegar menn slökkva á forritinu, þegar þeir slökkva á tölvunni, eða hvort Jaws visti breytingarnar og þær gildi áfram þar til notandi breytir þeim aftur (sem er sjálfvirka stillingin). Jaws er líka þægilegra og liðlegra, bæði í Word, í Internet Explorer og í Firefox.

Þegar á heildina er litið virðist uppfærsla úr Jaws 12 í Jaws 13 skila meiru en uppfærslur úr Jaws 11 í Jaws 12, og jafnvel Jaws 10 í Jaws 11 gerðum.
Þeir sem vilja læra meira á Jaws, eru með það sett up hjá sér, og finnst gaman að lesa enskar Daisy bækur, geta sótt sér aragrúa kennslubóka um Jaws með því að fara í Jaws hjálpina og velja þar „Check for updates“. Þar er listi af alls konar ítarefni og hægt er að nota bilslánna til að velja hvaða bækur menn vilja sækja úr listanum. Síðan er smellt á „download“ takkann og Jaws sér um restina.

Þegar bækurnar eru komnar inn er hægt að lesa þær með því að fara í Jaws hjálpina og velja þar „Training“.
Ef þessi langloka er ekki nóg fyrir ykkur getiði lesið allt sem hægt er að lesa um Jaws 13 á heimasíðu Freedom Scientific.
http://www.freedomscientific.com/downloads/jaws/JAWS-whats-new.asp

Bættur punktaletursstuðningur í NVDA 2011.2.

Nú er það af NVDA skjálesaranum að frétta að frá og með útgáfu 2011.2 styður NVDA punktaletursskjáina frá Baum. Áður var stundum hægt að fá stuðning með því að setja upp BrlTTY hugbúnaðinn, fikta í nokkra tíma og vonast eftir kraftaverki. Nú þarf einfaldlega að fara í NvdA valmyndina og virkja punktaletursvalmyndina þar sem hægt er að velja Baumskjáina. Fyrir þá sem vilja íslenskt punktaletur, þá er það ferli örlítið flóknara, og best að þið verðið í sambandi við tæknimenn Miðstöðvarinnar, sem geta sent ykkur punktaleturtöflu og leiðbeiningar, eða mætt á staðinn galvaskir og reddað því fyrir ykkur á 5 mínútum, jafnvel þremur ef þið eruð með heitt á könnunni. Frá og með NVDA útgáfu 2012.1 stefnum við að því að nóg sé að velja ísensku sem tungumál, Baum sem skjá, og þá virki allt saman.

Það sem enn virkar ekki ennþá í punktaletursstuðningnum er músarhermirinn (þ.e.a.s. takkarnir fyrir ofan punktaleturslínuna), en vonandi verður búið að lagfæra þetta í títtnefndri útgáfu 2012.1.

Verra er að NvdA býður ekki upp á punktaletursham. Því er ekki hægt að fara upp eða niður um línu með skjánum sjálfum og skoða hvað er þar. Til þess verður að færa bendilinn sjálfan með örvalyklunum. Þetta væri allt saman hægt að laga, en engin fjárhagslegur stuðningur hefur fengist fyrir punktaletursstuðning, svo NVDA menn verða að einbeita sér að öðru.

Ókeypis skjálesari frá Nokia, aðgengisbylting eða eitthvað sem er þegar úrelt?

Nokia tilkynnti á ráðstefnu sem nýlega var haldin í London að fyrir lok árs verði kominn ókeypis skjálesari frá fyrirtækinu, í raun er hér um úþynntan Mobilspeak skjálesara að ræða.

Til að byrja með virkar forritið einungis með þremur Nokia-símum: C5 5 MP, Nokia 700, og Nokia 701 með Symbian Belle. Tilkynning þessi kemur okkur nokkuð spánskt fyrir sjónir (sem er skrýtið þar sem Nokia eru finnskir, en Codefactory sem framleiðir skjálesaran er að vævísu spænskt fyrirtæki). Skjálesarinn er búinn til fyrir Symbian stýrikerfið, sem hefur átt undir högg að sækja og telja men að það sé alfarið að hverfa af markaðnum. Það er hugsanlegt að Nokia noti Symbian kerfið á einfaldari og ódýrari síma (svokallaða feature phones á ensku), eins og tilkynning þeirra gefur til kynna. Ef af því verður gætum við farið að fá ódýra og þægilega síma með innbyggðum skjálestri. Ef eSpeak talgervillinn yrði notaður fylgir íslenska meira að segja með (þó gæðin mættu vera betri). Við vonum svo sannarlega að fleiri fyrirtæki fylgi fordæmi Apple og bjóði notendum að kaupa síma eins og hver annar, og þurfa svo einungis að kveikja á aðgengistækni sem fylgir með símanum. Í fljótu bragði má semsagt segja að skjálesari þessi frá Nokia sé vita gagnslaus, en ef þetta er bara byrjunin, og þeir luma á einhverju í pokahorninu t.d. nýtingu Symbian kerfisins á nýja kynslóð einfaldra og ódýra síma, eða skjálestur fyrir Windows Phone 7 síma, þá eru þetta frábærar fréttir. Við verðum bara að bíða og sjá hvað setur.

Þeir sem treysta tæplega túlkun tæknimola, og taka hana ekki trúanlega geta lesið tilkynningu Nokia hér: http://conversations.nokia.com/2011/10/27/nokia-rolls-out-new-screen-reader/

Punktaleturslyklaborð á snertiskjá, verður punktaletur næsta tískufyrirbærið til að senda SMS?

Fáir hafa heyrt Adam Durans getið, enn sem komið er, en vonir standa til að það gæti breyst á næstunni. Adam, sem er alls óskyldur Britney Spears eða Justin Bieber, er nemandi við Stanford háskólann í Bandaríkjunum og hefur nú unnið sér það til frægðar að útbúa hugbúnað sem breytir snertiskjá Android síma í punktaleturslyklaborð. Það sem er einstakt við forritið er að það leitar að fingrum notandans, lærir á þá og kortleggur. Fyrst leggur notandi fingurna á skjáinn (vísifingur, löngutöng og baugfingur hvorrar handar, litlufingur líka ef þeir vilja 8 punkta letur). Forritið skannar nú snertiskjáinn og áttar sig á hvaða fingur er hvar, og kortleggur punktaleturslyklaborðið þannig að vísifingur vinstri handar er punktur eitt, vísifingur þeirrar hægri er punktur fjögur o.s.frv.
Nú geta menn mótað punktaletursstafina með fingrunum og stutt með þeim hvar sem er á skjáinn. Tölvan breytir svo mynstrinu í stafi.
Forritið er í sjálfu sér tilbúið, og virkar vel. En því miður þarf að kljást við lögfræðinga og einkaleyfi áður en hægt er að koma því í hendur vorar. Undirritaðan klæjar bókstaflega í puttana að fá að prófa þetta og vonast til að við gætum farið að sjá punktaletursinnslátt á snertiskjái strax á næsta ári. Þetta hljómar eins og framtíð punktaletursins. Ímyndið ykkur ef þessi skynjun væri sett á alla snertiskjái, á símum, tölvum, sjálfsölum o.s.frv.
Einnig væri hægt að nota þessa tækni við aðgengilegri útfærslu á punktaletri fyrir stærðfræði og efnafræði, þar sem staðsetning táknanna skiptir máli, og vel mætti hugsa sér að sjáandi notendur, sem eru ávallt að leita nýra og hraðvirkari leiða til að skrifa SMS skilaboð, Twitter og aðra stutta texta hefðu áhuga á að nýta sér punktaletur til þess arna. Undirritaður er í sambandi við kunningja sína hjá Stanford, svo um leið og eitthvað gerist verður það tilkynnt hér í Tæknimolum.
Hér má lesa grein um forritið og horfa á YouTube myndband þar sem það er sýnt (ekkert sérstaklega aðgengilegt blindum notendum, afar myndræn framsetning).
http://www.engadget.com/2011/10/10/student-spends-summer-turning-a-tablet-into-a-braille-writer-sa/

Hvernig væri nú að fá sér gervileiðsöguhund?

Japanska fyrirtækið NSK er í óða önn að þróa leiðsöguhund sem er vélmenni (eða vélhundur). Hundur þessi getur gengið um á fjórum fótum, klifrað upp stiga og er nú kominn með myndavél.

Kannski er þetta svolítið hlægilegt enn sem komið er, en þegar GPS tækni er bætt við og vélhundurinn nettengdur gæti hér verið um afar merkilega uppfinningu að ræða.

Ímyndið ykkur að slá inn heimilisfang áfangastaðarins, senda það í hundinn og labba svo af stað. Hundurinn veit hvert halda skal og gengur ekki örna sinna á leiðinni (þó hann gæti orðið rafmagnslaus).

Hér má lesa grein New York Times, og hefur undirritaður það eftir öruggum heimildum að YouTube myndbandið sé einstaklega sætt.
Með slóðinni á myndbandið kveðja tæknimolar að sinni. Hafið það gott og lifið heil.
http://bits.blogs.nytimes.com/2011/11/08/japanese-company-developing-robotic-guide-dog/

Tæknimoli, 22. nóvember 2011
Birkir R. Gunnarsson

Til baka