Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
22. maí 2012

Guðmundi Viggóssyni veittur Gulllampinn

Guðmundi Viggóssyni augnlækni var veittur Gulllampinn, æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins á aðalfundi félagsins þann 19. maí síðastliðinn. Guðmundur hlaut Gulllampann fyrir 30 ára starf í þágu blindra og sjónskertra og gott samstarf við Blindrafélagið alla tíð, en Gulllampinn er veittur þeim einstaklingum sem skarað hafa fram úr vegna starfa sinna í þágu blindra og sjónskertra.

Guðmundur er fæddur í Reykjavík vorið 1946. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1973. Eftir það lagði hann stund á skurðlækningar og síðar augnlækningar og fékk sérfræðingsviðurkenningu í augnlækningum árið 1980 eftir sérnám við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð. Eftir heimkomuna 1981 vann hann sem sérfræðingur við Augndeild Landakotsspítalans, bæði sem skurðlæknir og sem barnaaugnlæknir. Síðar starfaði hann við Augndeild Landspítalans allt til ársins 2003. Hann var skipaður yfirlæknir og forstöðumaður Sjónstöðvar Íslands 1. júní 1986. Því embætti gegndi hann allt þar til Sjónstöðin gekk inn í nýstofnaða Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga 1. janúar 2008 og hefur síðan verið yfirlæknir þeirrar stofnunar. Guðmundur hefur kennt við Háskóla Íslands og skrifað fjölda greina í viðurkennd tímarit. Hann var ritrýnir Læknablaðsins og norræna augnlæknatímaritsins. Þá hefur hann tekið þátt í ýmsum félagsstörfum, en hann sat t.d. í læknaráði Landakotsspítala, siðfræðiráði Læknafélagsins og Fagráði Landlæknisembættisins um sjónvernd. Þá sat hann í stjórn augnlæknafélagsins, ljóstæknifélagsins og Sjónverndarsjóðs Íslands.

Guðmundur hefur helgað sig málefnum blindra og sjónskertra og segja má að hann sé brautryðjandi í þessum málaflokki hér á landi. Hann hefur nú skoðað og greint blinduvaldandi sjúkdóma í Íslendingum í hartnær 30 ár.

Til baka