Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
18. apríl 2013

Aðgengi í Windows 8

Eins og mörgum er kunnugt hefur Microsoft sent frá sér nýtt stýrikerfi sem á að leysa Windows 7 og hið óvinsæla Windows Vista af hólmi. Í ár rennur endanlega út öll ábyrgð á Windows XP og því mun ekki verða haldið við af Microsoft svo það verður nauðsynlegt fyrir þá sem hafa skýlt sér í öryggi XP-kerfisins að koma úr felum og fjárfesta í Windows 7 eða 8.
Raunin er sú að það verður sífellt erfiðara að finna vélar á þokkalegu verði sem innihalda Windows 7. Microsoft er mjög öflugt í markaðssetningu nýrra afurða og ein af þeim leiðum sem þeir fara er að þvinga notandann til þess að skipta yfir. Þeir hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir þetta framferði en engu að síður er raunin sú að almenningur sem vill nota PC-tölvu með Microsoft stýrikerfi í dag fær ekki að sleppa við Windows 8.
Þetta er undarleg markaðsaðferð og margt hægt að segja um hana, sérstaklega í ljósi þess að Windows 7 kerfið vakti mikla lukku og hefur reynst mjög vel og mörgum þykir því ótímabært að skipta.
Aðgengi í Windows 8 er svolítið eins og færeyskur dans; eitt skref til vinstri og tvö til hægri. Windows 8 er hannað með snertiskjái í huga en sá búnaður er hinsvegar enn sem komið er ekki alveg á allra færi. Það er hægt að fá spjaldtölvur með Windows 8 og svo hefur Microsoft sett Surface-vélina sína á markað, sem er einhverskonar millistig á milli spjaldtölvu og fartölvu, og líka með snertiskjá. Þetta eru hinsvegar ekki mjög stórir skjáir og sú ágæta stækkun sem fylgir Windows 8 nýtur sín ekki til fullnustu. Stækkunin, sem er svipuð og iPad-stækkun, þar sem þú notar puttana til þess að stækka skjámyndina og færa hana til og frá, nýtur sín mjög vel á stórum snertiskjá og tölvu eins og þeirri sem Blindrafélagið er með í tölvuveri sínu. En þær eru heldur ekki ókeypis og eru þá orðnar jafn dýrar og iMac-tölvurnar sem margir sjónskertir myndu þá kannski frekar vilja nota.
Nýtt er að hægt er að nota öfuga liti og Windows Magnifier, sem virkar nú svipað og Zoom Text, ekki alveg sömu gæði en ótrúleg framför miðað við fyrri útgáfur. Nú ætti því að vera hægt að vinna á Windows 8 án sérforrita fyrir fólk með talsverða sjónskerðingu/stækkunarþörf.
En talið haltrar enn, bókstaflega, hinn innbyggði Windows Narrator ræður illa við flóknar valmyndir og þann hraða sem vélin bíður upp á. Hann höktir endalaust og gerir manni ekki auðveldlega kleift að ferðast á milli forrita og framkvæma aðgerðir sjónlaust. NVDA, open source hugbúnaður sem hefur þróast mikið seinustu ár, og er orðin samkeppnishæfur við t.d. JAWS, höktir einnig á Windows 8 og virðist heldur ekki ráða við viðmótið.
Þannig að á meðan við bíðum eftir uppfærslum frá þeim forritum sem við þekkjum og elskum, svo þau geti leitt okkur sjónlaust gegnum þetta nýja stýrikerfi, þá er það ekki aðgengilegt blindum. Það bíður hinsvegar upp á nýja möguleika fyrir sjónskerta hvað varðar innbyggða stækkun og með ódýrari snertiskjálausnum verður það virkilega spennandi að fylgjast með þeim málum í framtíðinni.
Fyrir þá sem vilja kynna sér meira um Windows 8 er hægt að hafa samband við mig og bóka tíma í tölvuverinu. En ég hvet líka fólk til að fara í tölvubúðir og fá skoða græjurnar þar og sjá hvort þær geti hentað þörfum manns.
Með tilkomu spjaldtölvunar og snjallsíma eru komnir svo margir möguleikar fyrir þá sem nota tölvur í annað en ritvinnslu og um að gera að kynna sér allar þessar skemmtilegu lausnir og finna þá sem hentar manni allra best. Þá má líka taka tillit til hvernig þetta „lúkkar“ og hvort það passi við manns persónulega stíl. En verið endilega ófeimin við að hafa samband við mig ef þið eruð í vafa með eitthvað.
Rósa María Hjörvar
rosa@midstod.is

Til baka