Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
8. apríl 2014

Notendum Miðstöðvarinnar stendur til boða að taka áhugasviðspróf hjá námsráðgjafa

 

Notendum Miðstöðvarinnar stendur til boða að taka áhugasviðspróf hjá námsráðgjafa. Áhugasviðskannanirnar eru eftirfarandi; Í leit að starfi, Bendill og Strong. Hægt er að bóka viðtal hjá Elínu Mörtu Ásgeirsdóttur náms- og starfsráðgjafa í síma: 545-5800.

Í leit að starfi

Í leit að starfi er staðfærð íslensk þýðing bandarísku áhugakönnunarinnar Self-Directed Search (SDS) sem unnin er út frá kenningu John L. Hollands um áhugasvið. Árið 2007 var búið að þýða prófið yfir á 16 tungumál (Guichard og Lenz, 2005; Ruff, Reardon og Bertosch, 2007). Niðurstöður könnunarinnar eru mjög aðgengilegar og fer náms- og starfsráðgjafi yfir þær með notanda. Könnunin hentar einstaklingum á aldrinum 16 til 20 ára.

Bendill

Bendill er íslenskt mats- og upplýsingakerfi hannað af Dr. Sif Einarsdóttur og Dr. James Round sem tekur mið af íslensku námsumhverfi og íslenskum vinnumarkaði ólíkt þeim áhugakönnunum sem hafa staðið Íslendingum til boða hingað til. Það er hannað til að aðstoða þá sem taka þurfa ákvarðanir um nám eða starfsvettvang. Bendill byggir á kenningu Hollands um formgerð starfsáhuga. Í ráðgjöf um náms- og starfsval er lögð áhersla á að fólk velji nám og síðar starf, sem hæfir áhuga þeirra. Þetta er mikilvægt og ýtir undir ánægju í starfi og að hverjum og einum vegni vel á vinnumarkaði. Bendil má nota annarsvegar til að meta starfsáhuga og hinsvegar til að afla upplýsinga um nám og störf. Bendill er rafræn áhugakönnun sem tekin er á netinu með aðstoð námsráðgjafa.

Bendill-I er sniðin að þörfum nemenda í 10. bekk (15-16 ára).

Bendill-II metur áhugasvið ungs fólks á framhaldsskólaaldri (16-20+).

Bendill –III er ætlað nemendum í háskólum eða fullorðnu fólki sem hefur hug á háskólanámi.

 Strong

Áhugakönnun Strong (Strong Interest Inventory) er elsta og mest notaða áhugakönnun í heimi. Margar milljónir manna víða um heim nota niðurstöður hennar til þess að auðvelda val á námi og starfi. Á Íslandi hefur könnunin verið í notkun frá árinu 1986 og bjóða flestir háskólar og framhaldsskólar landsins upp á hana. Könnunin er á íslensku en úrlausnin er á ensku. Með henni fylgja íslenskar leiðbeiningar. Áhugakönnun Strong hentar einstaklingum 18 ára og eldri.

Niðurstöðurnar eru víðtækar og má til að mynda nota þær til að finna hvaða nám og störf falla að áhuga einstaklingsins. Könnunin mælir áhuga fólks en ekki hæfni, getu eða kunnáttu.

*Eigandi prófsins frá árinu 1933 er CPP, Inc. California Bandaríkjunum. Dr. Sölvína Konráðs hefur unnið allar íslenskar þýðingar á prófinu og rannsóknir frá árinu 1987.

Verðlisti:

Í leit að starfi: 1.676 kr.

Bendill – I: 1.209 kr.

Bendill – II: 3.628 kr.

Bendill – III: 3.628 kr.

Strong: 6.800 kr.

Til baka