Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
21. ágúst 2014

Miðstöðin fær Samfélagslampann

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga fékk Samfélagslampa Blindrafélagsins árið 2014 fyrir framúrskarandi árangur á síðustu árum við að skapa blindum og sjónskertum einstaklingum aukna möguleika til sjálfstæðis.

Miðstöðinni var færður Samfélagslampinn við hátíðlega athöfn á 75 ára afmælishátíð Blindrafélagsins 19. ágúst. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson afhenti forstjóra Miðstöðvarinnar, Huld Magnúsdóttur viðurkenningarskjal og fallegan skjöld úr silfri með áletrun og merki Blindrafélagsins.

Í þakkarræðu sinni sagði Huld meðal annars:

"Það er okkur á Miðstöðinni sannarlega mikill heiður og ánægja að veita viðtöku Samfélagslampanum frá Blindrafélaginu. Miðstöðin sem var stofnuð árið 2009 og heyrir undir Velferðarráðuneytið, á því láni að fagna að hafa yfir að ráða einvala hópi starfsmanna sem  hefur unnið ötullega að því að byggja upp langþráða þjónustu í samráði við hagsmunaaðila og notendur.  Þá vil ég  sérstaklega nefna að samstarfið við Blindrafélagið hefur verið ákaflega farsælt og er gott dæmi um gagnlega og ánægjulega samvinnu hagsmunaaðila og hins opinbera. Um leið og við þökkum kærlega fyrir þann hlýhug og stuðning sem Blindrafélagið sýnir okkur með þessari viðurkenningu, óskum við afmælisbarninu innilega til hamingju með daginn og óskum félaginu velfarnaðar um ókomin ár og hlökkum til áframhaldandi  góðs samstarfs."

Til baka