Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
19. febrúar 2015

Leiðsöguhundurinn Bono afhentur

Íslenski leiðsöguhundurinn Bono var afhentur nýjum félaga sínum, Halldóri Sævari Guðbergssyni, við hátíðlega athöfn á Akureyri í gær, miðvikudag. Fjölmenni mætti til að fagna með þeim félögum en athöfnin fór fram í sal Lionsklúbbsins Hængs. Huld Magnúsdóttir, forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, afhenti Halldóri Bono fyrir hönd stofnunarinnar.  

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, bauð þennan nýja ferfætta íbúa velkominn í bæinn og Bergvin Oddson, formaður Blindrafélagsins, fagnaði því að bæst hefði í hóp þeirra blindu og sjónskertu einstaklinga sem fengið hefðu leiðsöguhunda.  

Óhætt er að segja að Bono muni hafa mikil áhrif á sjálfstæði Halldórs sem starfar sem atvinnuráðgjafi en Halldór sem verið hefur sjónskertur frá barnsaldri, missti alla sjón nýlega. Bono mun því verða Halldóri mikil aðstoð við umferli og sjálfstæði í starfi.

Þyrfti 14 leiðsöguhunda

Bono, sem er af labrador kyni, er annar leiðsöguhundurinn sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin úthlutar. Hann er íslenskur hundur og þjálfaður á Íslandi, ólíkt flestum þeim leiðsöguhundum sem nú þegar eru í notkun, sem hafa komið erlendis frá. Mikil vinna felst í þjálfun leiðsöguhunda og hefur Bono verið í þjálfun hjá leiðsöguhundaþjálfara Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar undanfarið ár.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð hefur í samvinnu við Blindrafélagið unnið að þróunarverkefni með leiðsöguhunda, sem felst í kaupum og þjálfun á íslenskum hundum. Þörfin fyrir leiðsöguhunda er mikil og Bono er sjöundi leiðsöguhundurinn sem verður í notkun á Íslandi núna en áætlað er að a.m.k. 14 hundar þurfi að vera í notkun á hverjum tíma til að uppfylla þörfina fyrir leiðsöguhunda.

Blindrafélagið hefur staðið dyggilega á bak við verkefnið með fjáröflun, meðal annars með sölu dagatala, en allar myndir í dagatalinu eru af núverandi leiðsöguhundum, unghundum í þjálfun og hvolpum sem keyptir hafa verið í verkefnið.

                
Til baka