Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
3. desember 2015

Hvað felst í kennsluráðgjöf Miðstöðvar?

Nám

Þjónusta fyrir fólk í námi felst í því að sérfræðingur Miðstöðvarinnar leggur í upphafi mat á stöðu nemandans með tilliti til aðgengis að námi og námsefni. Á grundvelli þessa mats er unnin þjónustuáætlun í samstarfi við nemandann og þá sem að þjónustunni koma. Meðal þeirrar þjónustu sem Miðstöðin veitir er:

 • athugun og mat á sjónnýtingu nemandans
 • fræðsla á sjónskerðingu og sjónnýtingu til starfsfólks skólans og samnemenda í samráði við nemandann
 • mat á hjálpartækjaþörf
 • mat á hentugri leturstærð og leturgerð
 • útvegun og milliganga námsgagna á aðgengilegu formi
 • kennsla á hjálpartæki og forrit í tölvum
 • fræðsla og aðstoð til nemandans til að styrkja og efla félagsfærni hans
 • aðstoð við nemandann við val á frekara námi
 • aðstoð við glósutækni í samvinnu við námsráðgjafa
 • fræðsla til starfsmanna skólans

Í flestum tilvikum vinnur sérfræðingur Miðstöðvarinnar náið með námsráðgjafa skólans.

Frístundirnar

Hugtökin sjálfsefling, virkni og þátttaka eru höfð að leiðarljósi í þjónustu Miðstöðvarinnar. Starfsmenn hennar keppast við að veita stuðning og ráðleggingar til fólks sem sækist eftir því að stunda iðju sína og áhugamál. Frístundir fólks eru margvíslegar og fjölbreyttar, allt frá rólegum bókalestri að krefjandi íþróttum og útivist. Hvort sem einstaklingurinn vill tileinka sér ný áhugamál eða halda áfram fyrri iðkun er leitast við að aðstoða fólk við að yfirstíga hindranir sem verða á vegi þess.

Stuðningur við frístundir er fyrst og fremst fólginn í því að auðvelda aðgengi. Til þess er ýmist notast við skipulag umhverfis, ráðgjöf og þjálfun í umferli og athöfnum daglegs lífs og notkun hjálpartækja. Til dæmis er hægt að nálgast lesefni og krossgátur með bættri lýsingu, stækkunarglerjum, sjóntækjum eða sértækum stækkunarbúnaði. Fyrir þá sem ekki geta nýtt sjónina til lesturs er möguleiki á því að annast milligöngu um hljóbækur eða punktaletursbækur á því efni sem óskað er eftir. Hægt er að aðstoða fólk við að nálgast upplýsingar í gegnum tölvur og internetið með sértækum hugbúnaði og þjálfun í notkun hans.

Umferlisþjálfun kann sömuleiðis að vera mikilvægur þáttur í því að gera tómstundariðkun aðgengilega. Ráðgjafar Miðstöðvarinnar veita til dæmis umferlisþjálfun á gönguleiðum, líkamsræktarstöðvum, í verslunum og í opinberum byggingum í heimabyggð þjónustunotenda.

Stuðningur við frístundir er sniðinn að þörfum barns og fjölskyldu og tekur m.a. mið af aldri og sjónskerðingu. Lögð er áhersla á ráðgjöf, stuðning og samstarf við foreldra barnsins og þá sem hafa umsjón með frístundastarfi.

Í stuðningi við frístundir getur meðal annars falist:

 • aðstoð við aðlögun á tómstundum
 • fræðsla og stuðningur um sjónskerðingu og nýtingu sjónar
 • fræðsla við þjálfara og umsjónaraðila frístunda
 • ráðleggingar vegna ADL og umferlis
 • ráðleggingar vegna aðgengismála
 • virkni og samskipti við önnur börn
 • aðstoð við pantanir á stækkuðu letri eða punktaletri
 • mat á þörf fyrir lýsingu
 • ráðgjöf um gagnleg hjálpartæki
Til baka