Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
8. febrúar 2016

Spurt og svarað um leiðsöguhunda


Hvað er starfsævi leiðsöguhundsins löng?

Leiðsöguhundar eru yfirleitt tilbúnir til að hefja störf um 2 1/2 árs aldur. Hundarnir eru sérvaldir með tilliti til skapgerðar og hæfileika til að læra. Sem hvolpar eru þeir útsettir fyrir allskyns áreiti og þannig undirbúnir til að takast á við fjölbreyttar aðstæður sem þeir komast í kynni við þegar þeir hefja störf. Hlýðniþjálfun er vissulega mikilvæg. Þegar forþjálfun lýkur eru aðeins þeir hundar sem þykja vænlegir til að ná árangri sem leiðsöguhundar þjálfaðir frekar. Meðalstarfsaldur þeirra er á milli 8 til 10 ár en sumir geta unnið í allt að 10 ár.

Mega leiðsöguhundar fara hvert sem er?

Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti (nr. 941/2002) má starfandi leiðsöguhundur fara með notanda sínum á alla þá staði sem opnir eru almenningi. Má þar nefna allar verslanir, veitingastaði, gististaði, sundstaði, íþróttahús, leikhús, strætisvagna og flugvélar. Notandi á ekki að þurfa að borga undir hundinn þegar ferðast er með hann í samgöngutækjum (t.d. í flugvél) og skal hundurinn ávallt fylgja notanda, og má ekki  vera settur í farangursgeymslu.

Má klappa leiðsöguhundum?

Það má ekki klappa leiðsöguhundi þegar hann er að vinna. Þegar leiðsöguhundur er með beisli bendir það undantekningarlaust til þess að hann sé að vinna. Þegar hann er aðeins í ól og ekki með beisli má sennilega klappa honum, en þá er engu að síður góður siður að fá leyfi til þess hjá notandanum. Leiðsöguhundar eru mjög mannelskir og vilja gjarnan láta klappa sér. Hinsvegar eru þeir þjálfaðir til að viðhalda mikilli stillingu og sýna lágmarks viðbrögð við fólki og öðrum dýrum þegar þeir eru við störf.

Eru leiðsöguhundar gáfaðari en aðrir hundar?

Leiðsöguhundar eru valdir með ákveðna eiginleika í huga. Þeir eru húsbóndahollir og láta vel að stjórn. Þeir eru þó ekki endilega gáfaðari en aðrir hundar en þeir eru vissulega þjálfaðri. Mikilvægt er að hafa í huga að góður leiðsöguhundur tekur fáar sjálfstæðar ákvarðanir. Hann fylgir fáum en afar mikilvægum reglum, svo sem að ganga í ákveðinni fjarlægð frá vegkanti, fara í kringum hindranir og fylgja ekki eðlishvötum sínum um að veita öðrum dýrum eða lykt athygli þegar hann er við vinnu. Hann fylgir fáum og einföldum fyrirmælum, til dæmis um að taka næstu hægri eða vinstri beygju eða að stöðva við næstu gatnamót, bekk eða ákveðnar dyr þegar hann nálgast hús. Ákvarðanir um hvert skal farið og hvernig skuli komast þangað eru alfarið í höndum notandans. Notandi leggur ekki af stað frá heimili sínu og biður hundinn um að fara fyrst í mjólkurvörudeildina í kjörbúðinni með viðkomu í pósthúsinu og stuttu innliti hjá vini sínum á leiðinni heim. Notandinn leiðbeinir hundinum nánast hvert skref leiðarinnar með hvatningu og fyrirmælum.

Eru leiðsöguhundar alltaf í vinnunni?

Leiðsöguhundar eru mjög agaðir og hlýðnir þegar þeir eru með beislið og í vinnunni. Þess á milli eru þeir eins og eðlilegir heimilishundar. Þeir hafa mikið gaman af því að hlaupa frjálsir um, þefa eða leika sér við aðra hunda og við eigendur sína. Vissulega eru leiðsöguhundar mjög húsbóndahollir. Þar sem notandi og hundur verja miklum tíma saman myndast yfirleitt sterk vinatengsl. Notendum þykir yfirleitt ákaflega vænt um hund sinn og margir segja hann vera sinn besta og tryggasta vin. Í þjálfun hundsins og stuðningi hundaþjálfara við notendur er lögð rík áhersla á vinasambandið við hundinn. Mikilvægt er að notandi sé fær um að sýna mikla ákveðni og fastheldni við vissar aðstæður en mikla hlýju og kærleik við aðrar. Án vinasambandsins er vinnusambandið ómögulegt til langs tíma. Ef leiðsöguhundur býr með notanda sem á fjölskyldu er mikilvægt að notandinn sjálfur komi fyrst og fremst að ánægjulegustu stundunum í lífi hundsins, svo sem í kringum matargjöf, frjálsa útivist og umhirðu.

Fylgir því mikill kostnaður að fá og vera með leiðsöguhund?

Notendur sem fá leiðsöguhundi úthlutað, greiða ekki fyrir hundinn eða þjálfun hans. Þeir greiða hins vegar fóðurkostnað og almennt uppihald á hundinum. Hundarnir eru eign Miðstöðvarinnar og þess vegna á ábyrgð hennar. Í því felst að Miðstöðin sér um dýralækna- og lækniskostnað og skráningar hjá sveitarfélögum.

Fylgir því mikil ábyrgð að vera með leiðsöguhund?

Öllum heimilisdýrum fylgir mikil ábyrgð og eru leiðsöguhundar þar engin undantekning. Vel starfandi leiðsöguhundi líður vel og er þá líkamlegum og tilfinningalegum þörfum hans mætt. Huga þarf vel að réttri fóðrun og umhirðu á feldi og klóm hundsins. Nauðsynlegt er að tryggja reglubundna og fjölbreytta útivist daglega. Eins er mikilvægt að hrósa hundinum reglulega, sýna honum hlýju og væntumþykju. Til að standa undir ábyrgð þeirri er fylgir því að eiga leiðsöguhund þarf notandinn að sinna ákveðnum verkefnum nánast undantekningarlaust. Það að sinna þessum verkefnum reynist þó yfirleitt jafn gefandi fyrir mann og hund.

 

Til baka