Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
23. ágúst 2016

Samþætt sjón- og heyrnarskerðing

Daufblinda er sértæk fötlun. Daufblinda er samþætt sjón- og heyrnarskerðing. Hún takmarkar athafnir einstaklingsins og kemur í veg fyrir fulla þátttöku hans í samfélaginu í slíkum mæli að þörf er á sérsniðinni þjónustu, aðlögunar umhverfis og/eða hjálpartækja í boði samfélagsins.

Viðbót við skilgreininguna

  1. Þegar skynfærin sem veita okkur upplýsingar úr fjarlægð skerðast, þ.e. sjón og heyrn, krefst það þess að við fáum upplýsingar á annan hátt, t.d. með snertingu, hreyfingu og skynjun rýmis, lyktar og bragðs auk minnis og rökréttra ályktana.
  2. Þörf fyrir einstaklingsmiðaða aðlögun umhverfis og aðbúnaðar veltur á því hvenær á lífsleiðinni skerðingin byrjar að hafa áhrif m.t.t. málþroska og samskipta, hversu mikil sjón- og heyrnarskerðingin er, hvort skynskerðingin tengist öðrum skerðingum, hvort skerðingin er stöðug eða ágerist
  3. Einstaklingur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu getur átt misauðvelt eða erfitt með að leysa verkefni af hendi eftir aðstæðum. Þess vegna er þörf á að sérhver iðja og þátttaka í henni sé metin út af fyrir sig.
  4. Daufblinda hefur í för með sér þörf fyrir einstaklingsmiðaða aðlögun umhverfis. Þetta á sérstaklega við um öflun upplýsinga, tjáskipti og félagslegt samspil, rötun og frjálsar hreyfingar, athafnir daglegs lífs, krefjandi starf í nánasta umhverfi þar með talið lestur og skrift. Aðlögunin þarf að eiga sér stað í virku samstarfi á milli einstaklinga og umhverfis. Ábyrgðin á framkvæmdinni hvílir á samfélaginu.
  5. Þverfagleg nálgun, ásamt sértækri þekkingu á samþættri sjón- og heyrnarskerðingu, er nauðsynleg við skipulagningu umhverfis og þjónustu.
Til baka