Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
23. ágúst 2016

Sjónathugun á Miðstöð

Þjónusta hjá sjónfræðingum og augnlækni Miðstöðvarinnar er veitt þeim sem eru:

  • með sjón sem er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og sjónsvið innan við 20 gráður
  • að glíma við erfiðleika vegna sjónskerðingar t.d. við lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum, við athafnir daglegs líf og umferli
  • með sjón sem er minni en 5% með venjulegum sjónglerjum og innan við 10 gráðu sjónsvið

Í athugun á sjón og sjónnýtingu felst meðal annars:

  • athugun á augnbotnum, sjóntaugum, augnhreyfingum og sjónlagsgöllum.
  • mæling á sjónskerpu. Sjónskerpa er mælikvarði á getu augans til að sundurgreina smáatriði. Notuð eru viðurkennd sjónprófunarspjöld og töflur, bæði til athugunar á sjón í fjarlægð sem og nær.
  • mæling á sjónvídd. Með orðinu sjónvídd er átt við það svæði sem viðkomandi sér í einu án þess að hreyfa til augu eða höfuð.
  • könnun á blæbrigðanæmi. Blæbrigðanæmi er hæfileiki augans til að greina misgrá tákn/rendur. Það skiptir ekki síst máli þegar ferðast er um í rökkri.
  • athugun á litaskynjun, þ.e. hæfileikanum til að greina liti og litaafbrigði.
  • könnun á hæfileika til ljósaðlögunar, þ.e. hversu fljótt viðkomandi getur aðlagast myrkri og birtu.

Sjónnýting byggir á notkun allra þeirra þátta sem skráðir eru hér að ofan. Auk þess er metinn hæfileikinn til að geta unnið úr þessum þáttum sér til gagns, þ.e. hvernig heilinn vinnur úr ljósáreiti sem berst til miðtaugakerfis. Slík úrvinnsla nær yfir atriði eins og sjónskerpu, birtutemprun, litasamsetningar, rýmisskynjun, samhæfingu augna og handa og stjórn hreyfinga. Tenging við önnur skynfæri skiptir auk þess máli til að skilja betur merkingu sjónáreitis.

Til baka