Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Umsagnir um leiðsöguhunda

Leiðsöguhundurinn Exo hefur bætt líf Svanhildar Önnu Sveinsdóttur mikið en hann fékk hún vorið 2010. Hann er hennar hjálpartæki þegar hún þarf að komast á milli staða og gerir henni kleift að komast af án annarrar aðstoðar til að sinna sínum daglegu og félagslegu störfum.

,,Samvinna okkar hefur gengið mjög vel, ég dáist að því hvað hann er mikill snillingur í sinni vinnu. Hjálpin sem hann veitir mér er gulls ígildi" segir Svanhildur ánægð. Svanhildur segist vera miklu meira úti eftir að hún fékk leiðsöguhundinn og kunningjar hennar segjast alltaf sjá hana alls staðar. ,,Hann er farinn að rata á þá staði sjálfur sem ég vil fara til. Ég segi bara ,,Bónus" og þá fer hann með mig þangað. Hann er m.a.s. farinn að rata inn í búðinni. Líf mitt eftir að ég fékk Exo er ekki sambærilegt við það sem það var áður, hann er mér svo mikil hjálp." Hún segir leiðsöguhundinn vera fyrst og fremst hjálpartæki og að hann hafi sannað gildi sitt margsinnis. Hann er jafnframt vinur hennar og hún segir hann veita sér mikinn félagsskap. Stuttu eftir að Svanhildur fékk Exo fékk hún að vita að hún fengi ekki að hafa hund í þeirri íbúð sem hún bjó í þá. ,,Hundahald var bannað í gömlu blokkinni og ég sótti formlega um undanþágu áður en hann kom og fékk fyrst neitun en síðan bara sex mánaða leyfi á meðan ég fyndi annað húsnæði. Eftir umfjöllun sem var í fjölmiðlum fékk ég lengri frest til að fara út." Svanhildur þurfti að selja íbúðina sína og flutti rétt áður en lagabreyting gekk í gegn sem felur í sér að leiðsöguhundar skuli vera leyfðir alls staðar. ,,Við erum mjög sátt þar sem við erum núna. Við búum á jarðhæð og það er þægilegra fyrir okkur bæði, hér eru engar tröppur og svo fær Exo smá pláss út í garði." Drífa Gestsdóttir, þjálfari leiðsöguhunda fylgist með Exo og samvinnu þeirra Svanhildar. ,,Ég get alltaf leitað til hennar ef eitthvað kemur upp á eða ég þarf að fá ráð, það er mjög gott að fá þá aðstoð" segir Svanhildur.

 

,,Samstarfið hefur gengið vonum framar og hann er ekki bara orðinn einn af fjölskyldunni heldur er hann orðinn að eftirlæti allrar stórfjölskyldunnar" segir alþingismaðurinn Helgi Hjörvar sem fékk leiðsöguhundinn X vorið 2009.

X var einn af fjórum leiðsöguhundum sem komu hingað til lands frá leiðsöguhundaskóla norsku blindrasamtakanna. Helgi segist hafa ákveðið það árið 1996 þegar hann var framkvæmdastjóri hjá Blindrafélaginu að fá sér leiðsöguhund þegar hann væri alveg búinn að tapa sjón en hann er með hrörnunarsjúkdóm í augum. ,,Síðan ákvað ég að það væri gott að fá leiðsöguhund á meðan ég hefði en smá ratsjón til að það yrði auðveldara að læra á hundinn og átta sig betur á breyttum aðstæðum og aðlagast. Í björtu og reglulegu umhverfi hef ég enn ágæta ratsjón en hann hjálpar mér mikið þegar það er farið að skyggja og þegar eitthvað óvænt eða óreglulegt er í umhverfinu eins og t.d. kassi á miðjum gangi eða barn að leika sér á gangstétt" segir Helgi. Hann nefnir það einnig að með hjálp X hafi hann aftur getað farið út að hlaupa sem honum finnst sérlega mikilvægt af því að hann var hættur að geta farið einn. ,,Það hefur komið mér á óvart hvað er hægt að kenna honum ofsalega margt og einnig hvað lundin í honum breytist eftir því hvort hann er í vinnugallanum eða ekki. Þegar hann er kominn heim og ég tek af honum beislið hleypur hann um og leikur sér með börnunum mínum. Þótt það standi í reglubókunum að maður megi t.d. ekki kasta til hans bolta væri maður varla mannlegur ef maður gerði það ekki stundum og leyfði honum að fá útrás. Það verður þó að vera jafnvægi í því vegna þess að ef hann fær að leika sér of mikið bitnar það á einbeitingunni hjá honum og aganum. Hann er rosalega agaður í vinnunni og mikil hjálp fyrir mig en hann er líka uppspretta gleði og ánægju fyrir aðra í fjölskyldunni" segir Helgi.