Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

J.O.B.S. MDVI

JOBS MDVI er Leonardo verkefni, sem er evrópskt styrktarkerfi, en það er styrkt af Menntunaráætlun Evrópusambandsins. JOBS MDVI stendur fyrir: "Training for Professionals working with individuals with multiple disabilities and visual impairment on finding jobs and opportunities that benefit society". Á íslensku gæti þetta útlagst sem: "Þjálfun starfsmanna sem vinna með sjónskertum einstaklingum með viðbótarfötlun til að finna störf og tækifæri við hæfi". Markmið verkefnisins er að skoða þjálfunarmöguleika fagfólks á þessu sviði sem og að þróa hugmyndafræði eða aðferðir sem munu nýtast sjónskertum einstaklingum með viðbótarfatlanir hvar sem þeir eru staddir í lífinu. Hingað til hefur reynst erfitt í flestum, ef ekki öllum Evrópulöndunum að finna vinnu eða dagúrræði við hæfi þessara einstaklinga. Það er því mikilvægt að starfsfólk og fagaðilar sem vinna með einstaklingum sjái tækifæri en ekki hindranir í því að koma fólki með sjónskerðingu út á vinnumarkað eða í dagúrræði. Miðstöðin leiðir verkefnið og stýrir. Ætlunin er að fá fram upplýsingar um bestu möguleg vinnubrögð og tækifæri sem nýtist fagfólki í vinnu með blindum/sjónskertum einstaklingum með viðbótarfötlun. Mikil breidd er í verkefnahópum þar sem löndin senda hver um sig ólíka fagaðila og stofnanir til að kynna sín verk. Verkefninu er skipt niður í fjögur megin þemu:

  • Vinnumiðlun/vinnuþjálfun
  • Dagúrræði
  • Sjálfshjálp
  • Tækni

Í hverju þema er leitast við að finna leiðir og þjálfunarmöguleika fyrir starfsfólk og fagaðila til að efla sig á því sviði. Þannig getur það fær þekkinguna heim í eigið land og umhverfi. Verkefnahópurinn leitast á endanum við að styðja við það sem fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar stendur að sjónskert fólk með viðbótarfötlun fái mestu möguleika til atvinnuþátttöku, dagúrræða, samskipta og hæfni til sjálfshjálpar í sínu samfélagi.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu verkefnisins: www.jobsmdvi.org