Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Viðtal við þjálfara leiðsöguhunda

Hundur staðsetur sig milli kants og þjálfara Hundur stöðvar þjálfara við tröppur Hundur staðsetur sig milli gangstéttarbrúnar og þjálfara Teymi að störfum; sameiginlegur skilningur og öryggi

 

Leiðsöguhundar eru mjög mikilvægt hjálpartæki fyrir þá blindu og sjónskertu einstaklinga sem nota þá. Þeir aðstoða þessa einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt og eru sérþjálfaðir í að forðast hindranir, stöðva við kanta, tröppur og öll gatnamót, fara yfir umferðargötur á öruggan hátt og fylgja fyrirmælum sem notandinn gefur.

,,Það er samt ekki hægt að segja við leiðsöguhundinn ,,farðu út í banka" og hann gengur með mann út í banka" segir Drífa Gestsdóttir, hundaþjálfari Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. ,,Einstaklingurinn sjálfur verður að kunna leiðina sem fara á en hundurinn hjálpar til við að komast þangað."

Rétt eins og hvíti stafurinn er leiðsöguhundur skilgreindur sem hjálpartæki í umferli. Ákvarðanir um hvert skuli farið eru alfarið í höndum notandans sem stýrir hundinum. Notandinn er í stöðugu sambandi við hundinn til þess að stýra ferðinni að áfangastað. Þess vegna er nauðsynlegt að notandinn sé vel áttaður í umhverfinu sem gengið er um, viti hvar hann er og hvert skuli haldið.

,,Besta leiðin til að lýsa leiðsöguhundi er það að hann sé hinn fullkomni heimilishundur, þeir þurfa að vera yfirvegaðir, samstarfsfúsir, öruggir í öllu umhverfi og ókunnum aðstæðum með jafnaðargeð og heilbrigðir á sál og líkama" segir Drífa. ,,Við erum alltaf að leita að hundum sem henta sem leiðsöguhundar, núna er ég að þjálfa 10 mánaða tík sem lofar mjög góðu og tvo hvolpa. Þetta er eiginlega bara undirbúningur sem þeir eru í núna en alvöruþjálfun hefst ekki fyrr en hundarnir eru um eins og hálfs árs."

Þegar forþjálfun lýkur eru aðeins þeir hundar sem þykja vænlegir til að ná árangri sem leiðsöguhundar þjálfaðir frekar. Eftir þjálfun hjá leiðsöguhundaþjálfara fara hundarnir til notanda og þá hefst samþjálfun leiðsöguhunds og notanda (teymi) sem tekur u.þ.b. fjórar vikur. Þjálfunin tekur til allra þátta í sambúð teymisins, bæði hvað varðar þrifnað og umönnun hundsins sem og viðhald á þjálfun hans með reglulegum gönguferðum og hlýðniæfingum.

Áður en blindur eða sjónskertur einstaklingur fær leiðsöguhund þarf hann að fara í gegnum langt ferli. ,,Það er mjög mikilvægt að para saman notanda og hund. Ég þarf að kynnast einstaklingunum sem sækja um hunda. Hundar hafa mismunandi eiginleika, þarfir og skapgerð rétt eins og fólk, og hundur og maður þurfa að passa saman" segir Drífa. ,,Ég þarf líka að kenna fólki almennar umgengnisreglur við hunda áður en það fær leiðsöguhund, þetta er ekki endilega hundafólk sem notar leiðsöguhundana enda eru þeir ekki hugsaðir sem gæludýr heldur hjálpartæki."

Leiðsöguhundar eru yfirleitt tilbúnir að hefja störf um tveggja ára aldur. ,,Ég þarf að fylgjast með samstarfi teymisins árlega fyrstu fjögur árin þar sem lítið vandamál getur oft orðið að stóru vandamáli. Ef hundurinn kemst t.d. upp með að stöðva ekki alveg við kant getur hann farið að teygja sig lengra og reynt að komast upp með fleiri hluti. Ef ekki er farið eftir settum reglum og hundinum gefin skýr skilaboð er auðvelt fyrir hundinn að gera mistök og það getur orðið erfitt fyrir notandann þar sem hann treystir hundinum algjörlega t.d. úti í umferðinni" segir Drífa.

Leiðsöguhundur eru ekki eins og hvert annað gæludýr, hann er fyrst og fremst hjálpartæki. Þegar leiðsöguhundur er með beisli er það undantekningarlaust tákn um að hann sé að vinna og þá má ekki trufla hann. Leiðsöguhundar eru húsbóndahollir, vel agaðir og hlýðnir og þar sem notandi og hundur verja miklum tíma saman myndast yfirleitt sterk vinatengsl. Mikilvægt er að notandi sé fær um að sýna mikla ákveðni og fastheldni við vissar aðstæður en mikla hlýju og kærleik við aðrar. Án vinasambandsins er vinnusambandið ómögulegt til langs tíma.

,,Flestir þeirra sem nota leiðsöguhunda geta ekki hugsað sér að vera án þeirra. Þeim finnst þeir frjálsari, sjálfstæðari og óháðari öðru fólki. Þeir geta farið út í búð eða í göngutúr þegar þeim hentar og hundarnir halda fólki félagsskap og verða vinir notendanna" segir Drífa.