Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hér er að finna gátlista unninn af Öryrkjabandalagi Íslands varðandi aðgengi fyrir blinda og sjónskerta. Athugið að gátlistinn er ekki tæmandi og nauðsynlegt er að fagmaður fylgi honum eftir.

Litaval og skipulag

 • Skörp litaskil auðvelda sjónskertum aðgengi.
 • Skýrt skipulag gönguleiða er eitt af höfuðþáttum aðgengis.

Rötun

 • Leiðarmerking í gólfi eða gangstétt.
 • Skýrar gönguleiðir án hindrana, t.d. reiðhjóla, skilta og þrepa.
 • Kennileiti á stór opin svæði t.d. torg og anddyri.

Veggir og gólf

 • Ef veggir og gólf eru í sama lit þarf að aðgreina þau með gólflista í öðrum lit.
 • Gólf og veggir með miklum gljáa geta valdið speglun.
 • Skrautrendur á gólfum geta virkað sem hindranir.
 • Mynstruð gólfefni geta virkað á hreyfingu.

Tröppur

 • Merkingar þurfa að vera á tröppunefum u.þ.b. 5 cm rönd ofan á nefinu og önnur eins framan á því.
 • Þrep þurfa að vera regluleg, jafn há og í beinni línu.
 • Handrið þurfa að vera með öllum tröppum og athuga þarf að þau séu skv. staðli, að hægt sé að grípa utan um þau, að þau séu í réttri hæð og nái upp og niður fyrir þrepin.

Hurðir - dyr

 • Dyrakarmur eða hurð þarf að vera í öðrum lit en veggurinn.
 • Hurðarhúnninn í öðrum lit en hurðin.
 • Merkingar þurfa að vera á glerhurðum og glerveggjum, nauðsynlegt er að merkingin skeri sig vel úr, sé t.d. ekki í sama lit og veggurinn bakvið glerið. Merkingin þarf að vera í augnhæð fullorðins og augnhæð barns.

Merkingar

 • Merkingar þurfa að vera leiðandi og skýrar, bæði utan- og innanhúss.
 • Letur þarf að vera skýrt og skörp litaskil milli leturs og grunns (grátt letur á ljósum grunni er t.d. mun verra en hvítt á svörtum).
 • Háglansandi skilti eru erfið þegar glampar á þau.
 • Tákn eru fljótlesnari en texti.
 • Merkingar í lyftum þurfa að vera skýrar og rökréttar t.d. að hæðirnar séu í lóðréttri röð frá fyrstu neðst og upp úr.
 • Punktaletursmerkingar þurfa að vera auðfinnanlegar og þannig að auðvelt sé að ná til þeirra (t.d. ekki of hátt uppi).

Birta

 • Birta þarf að vera jöfn.
 • Gluggar við enda á göngum eru mjög óæskilegir þar sem menn fá glýju í augun þegar þeir ganga eftir ganginum og sjá ekki ganginn.
 • Góð lýsing þarf að vera í anddyri.
 • Nauðsynlegt er að hafa grindur/skerma á ljósum.

Hljóð

 • Bergmál er mjög óæskilegt fyrir blinda og sjónskerta.
 • Hljóðmerki geta hjálpað til við að finna innganga - hljóðmerki geta verið náttúruleg t.d. gosbrunnar.