Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Greining á daufblindu

Daufblinda felur í sér samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Daufblindan kemur í ljós þegar skert sjón getur ekki bætt upp skerta heyrn og skert heyrn getur ekki bætt upp skerta sjón.

Svo dæmi sé tekið getur einstaklingur með skerta heyrn að nokkru leyti skilið það sem sagt er með því að lesa af vörum, horfa á látbragð og líkamshreyfingu og nota annan sjónrænan stuðning í samtalinu.

Ef sjónskerðingin hindrar sjónrænar upplýsingar verða tjáskipti með tali mun erfiðari eða jafnvel ómöguleg. Á sama hátt mun einstaklingurinn eiga í erfiðleikum með að bæta upp sjónskerðinguna ef heyrnin skerðist verulega. Þá verður erfitt að meta úr hvaða átt hljóðið berst og vita hvar viðmælandinn er.

Ekki alveg heyrnarlausir og blindir

Daufblindir einstaklingar eru ekki endilega alveg heyrnarlausir og blindir en sjón- og heyrnarskerðing getur verið breytileg hvað varðar eðli og alvarleika. Þegar þessar tvær skerðingar koma fram í einu magna þær hvor aðra og því getur jafnvel miðlungsskynskerðing - þegar hún kemur fram í samspili við aðra - valdið miklum hindrunum í daglegu lífi.
Venjulega er sjón- og heyrnarskerðing metin og meðhöndluð hvor í sínu lagi, sem getur valdið því að samþætta sjón- og heyrnarskerðingin uppgötvast ekki og verður þar af leiðandi ekki fylgt eftir með viðeigandi aðgerðum og endurhæfingu.

Greining á daufblindu er forsenda bestu hæfingar og endurhæfingar sem völ er á s.s.
  • aðlögun samskiptaleiða
  • umferliskennsla
  • þjálfun í athöfnum daglegs lífs
  • þjálfun í notkun og stillingu heyrnartækja og sjónhjálpartækja
  • mat á kuðungsígræðslu
  • læknismeðferð og fyrirbyggjandi aðgerðir (t.d. glákumeðferð)
Síðdaufblinda kann að orsakast af undirliggjandi sjúkdómum sem oft eru stigvaxandi. Það á við þegar um er að ræða Usher-heilkenni. Með því að greina samþætta sjón- og heyrnarskerðingu snemma má draga úr alvarlegum starfrænum og sálfélagslegum afleiðingum sem birtast samfara aukinni sjón- og heyrnarskerðingu.

Greining á síðdaufblindu er forsenda þess að einstaklingurinn geti haldið áfram að lifa virku og sjálfstæðu lífi og haldið æskilegum lífsstíl. Fyrir ungt fólk skiptir þetta sérlega miklu varðandi þroska og nám. Í sumum löndum er greiningin „daufblinda“ einnig tengd lögboðnum réttindum til þjónustu, til dæmis til túlka- og leiðsagnarþjónustu (Noregi) og tengiliðafyrirkomulagi (Danmörku).

Uppgötvast of seint

Því miður uppgötvast samþætt sjón- og heyrnarskerðing seint eða alls ekki hjá mörgum. Rannsóknir sýna að á bilinu 40-60% heyrnarlausra barna glíma við ólík sjónvandamál. Daufblinda getur birst á ólíkan hátt frá einum einstaklingi til annars og því getur verið erfitt að greina hana. Það skiptir því miklu máli að þeir sérfræðingar sem vinna með sjón- og heyrnarskerta einstaklinga séu eftirtektarsamir og hafi til að bera þekkingu á því sem einkennir daufblindu. Og ekki síður, hvað beri að gera þegar hún uppgötvast. Þegar grunur vaknar um samþætta skynskerðingu er mikilvægt að viðkomandi sé vísað til læknisfræðilegrar og starfrænnar rannsóknar á sjón og heyrn. Til viðbótar þarf að rannsaka hvernig sjón- og heyrnarskerðingin hefur áhrif á lífsgæði einstaklingsins og færni hans í athöfnum daglegs lífs.

Greining

Mjög mikilvægt er að samþætt sjón- og heyrnarskerðing sé greind snemma. Það getur komið í veg fyrir neikvæð áhrif samþættrar sjón- og heyrnarskerðingar og stuðlað að auknum lífsgæðum. Við ónóga eða enga íhlutun er hætta á neikvæðum aukaverkunum í formi einangrunar, aðgerðaleysis og jafnvel félagslegra og tilfinningalegra raskana.

Samþætt aldurstengd sjón- og heyrnarskerðing (SASH) er algeng meðal aldraðra en er vangreind á Norðurlöndunum. Því er mikilvægt að aðstandendur og starfsfólk sem vinnur við umönnun aldraðra beini sérstakri athygli að sjón- og heyrn eldri borgara. Mikilvægt er, þegar sjón eða heyrn er rannsökuð hjá öldruðum og í ljós kemur alvarleg skynskerðing, að rannsaka hitt skilningarvitið eins fljótt og kostur er þar sem líkurnar á samþættri skynskerðingu aukast verulega með háum aldri.