Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Starfrænt greiningarteymi fyrir fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu tók til starfa 15. mars 2013. Í því eru fulltrúar frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Þegar metin er sjón og heyrn er það gert við bestu aðstæður hverju sinni. Samþætt sjón- og heyrnarskerðing kemur í ljós þegar sjón getur ekki bætt upp skerta heyrn og skert heyrn getur ekki bætt upp skerta sjón. Einstaklingur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu getur átt misauðvelt eða erfitt með að leysa verkefni af hendi eftir aðstæðum. Hann getur átt auðvelt með að leysa verkefni í einum aðstæðum en erfitt í öðrum. Því er mikilvægt að meta einstaklinginn í þeim aðstæðum sem hann er í (heimili, skóli, vinna).

Greiningarteymið hefur það hlutverk að gera starfræna greiningu/mat út frá Alþjóðlega flokkunarkerfinu um færni, fötlun og heilbrigði (ICF). Með starfrænni greiningu er verið að meta hvað gengur vel og til hvaða úrræða þarf að grípa í félagslegu umhverfi einstaklingsins til að hann nái sem mestri virkni. Dæmi um slíka félagslega þætti geta verið samskipti, umferli og athafnir daglegs lífs. Læknisfræðilegar upplýsingar eru sóttar til viðeigandi aðila þegar þess er þörf. Boðið er upp á undirbúnings viðtal áður en greiningarferlið hefst.

Sé óskað eftir starfrænni greiningu má nálgast beiðni um greiningu í hlekknum hér á eftir: Beiðni um starfræna greiningu (PDF)

Nánari upplýsingar má nálgast hjá:

Estellu D. Björnsson verkefnastjóra starfræns greiningarteymis 

estella@midstod.is

sími: 5455800