Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Um leiðsöguhunda

Hvað gera leiðsöguhundar?

Leiðsöguhundar aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Leiðsöguhundurinn er sérþjálfaður í því að:

 • forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð (t.d. trjágreinar og skilti).
 • hindra að notandinn hrasi um vegkanta eða tröppur.
 • stöðva við öll gatnamót.
 • fara yfir umferðargötur á öruggan hátt með því að forðast að ganga í veg fyrir bíla og önnur farartæki.
 • fylgja fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur.

Rétt eins og hvíti stafurinn er leiðsöguhundur skilgreindur sem hjálpartæki í umferli. Ákvarðanir um hvert skal farið eru alfarið í höndum notandans sem stýrir hundinum. Notandinn er í stöðugu sambandi við hundinn til þess að stýra ferðinni að áfangastað. Þess vegna er nauðsynlegt að notandinn sé vel áttaður í umhverfinu sem gengið er um, viti hvar hann er og hvert skuli haldið.

Hverjir geta nýtt sér leiðsöguhund?

Blindir og sjónskertir einstaklingar, sem hafa náð góðum tökum á notkun hvíta stafsins og hafa gott ratskyn út frá kennileitum og allskyns áreiti í umhverfinu, geta nýtt sér leiðsöguhund.

Þegar ákveðið er hverjir skulu fá leiðsöguhundi úthlutað er tekið tillit til eftirfarandi atriða:

 • Fötlunar umsækjanda af völdum blindu eða sjónskerðingar og þeirra erfiðleika sem hún veldur viðkomandi í því að sinna störfum sínum, áhugamálum og skyldum.
 • Þarfar fyrir leiðsöguhund vegna virkrar þátttöku í samfélaginu.
 • Ratskyns og færni í notkun hvíta stafsins.
 • Fjölda og fjölbreytni leiða sem einstaklingur hefur þegar tileinkað sér með notkun hvíta stafsins.
 • Líkamsstyrks, úthalds og jafnvægisskyns umsækjanda.
 • Ákveðni og getu til að viðhalda stjórnunarhlutverki í samskiptum við hundinn.
 • Aðstæðna sem bjóða upp á reglubundna og fjölbreytta notkun á hundinum í því hlutverki sem hann hefur verið þjálfaður fyrir.
 • Áreiðanleika umsækjanda og getu til að mæta þörfum hundsins með tilliti til hreyfingar, umhirðu, félagsskaps og hlýju.
 • Úthlutun leiðsöguhunda sbr. reglugerð um hjálpartæki.

Kynning á leiðsöguhundum 18.5.2015 (pdf)