Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Aðgengilegt lesefni

Á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu eru framleiddar og lánaðar út bækur á punktaletri og bækur á stækkuðu letri. Á punktaletri eru framleiddar bæði kennslubækur og afþreyingabækur en á stækkuðu letri eru aðallega framleiddar kennslubækur. Einnig á Miðstöðin nokkuð safn þreifibóka fyrir börn. Þar að auki er boðið upp á bækur sem kallast „Lesum saman“, en það eru barnabækur sem búið er að líma punktaletur inn í.

Allir sem lesa punktaletur geta fengið náms- og afþreyingarbækur. Þeir sem eru sjónskertir og þurfa stækkað letur geta fengið bækur eftir að mat á letursstærð hefur farið fram. 

Beiðni um bækur fer fram hjá ráðgjöfum. Beiðnir þurfa að berast með góðum fyrirvara.

Punktaletursbækur

Á Miðstöðinni er framleitt náms- og afþreyingarefni á punktaletri. Bækurnar eru ýmist framleiddar með 1 eða 1½ línubili, eftir þörfum hvers og eins.

Bækur með stækkuðu letri

Á Miðstöðinni er framleitt náms- og afþreyingarefni á stækkuðu letri. Ráðgjafi metur þörf einstaklings á leturstærð og leturgerð. Oftast er Tahoma leturgerðin notuð og 14-38 punkta leturstærð.

Flestar bækurnar eru með 1½ línubili. Bækurnar eru gerðar aðgengilegri fyrir notendur, til dæmis eru myndir stækkaðar, rammar fjarlægðir o.s.frv. Ekki er notuð skáletrun né undirstrikun.

Þreifibækur

Á Miðstöðinni er til vísir að þreifibókasafni. Þessar bækur eru framleiddar með það í huga að örva og þjálfa snertiskyn ungra barna.

Lesum saman

Á Miðstöðinni er boðið upp á að setja punktaletur í venjulegar smábarnabækur. Þá er punktaletrið skrifað á glært plast sem er límt inn á viðeigandi blaðsíður í bókinni. Þannig gefst blindum foreldrum og börnum þeirra tækifæri til að lesa og skoða bækurnar saman. Einnig eru þessar bækur ætlaðar fyrir ung, blind börn sem eru að byrja að skoða bækur sér til ánægju en er jafnframt góður undirbúningur fyrir lestur á punktaletri.