Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
 

Börn 0-6 ára

Í langflestum tilvikum er sjónskerðing meðal barna meðfædd og kemur því fljótt í ljós. En í sumum tilvikum á greining sér ekki stað fyrr en barnið er komið á grunnskólaaldur. Þar sem skerðingin kemur snemma í ljós er brugðist við með snemmtækri íhlutun. Þjónustan er sniðin að þörfum barns og fjölskyldu og tekur m.a. mið af aldri barnsins og sjónskerðingu þess. Lögð er áhersla á ráðgjöf, stuðning og samstarf við foreldra barnsins enda gegn þeir lykilhlutverki í umönnun og uppeldi.

Mikilvægt er að finna leiðir til að vekja áhuga blindra og sjónskertra barna á umhverfinu og kenna þeim markvissar aðferðir við að rannsaka og uppgötva það sem er í kringum þau. Einnig þarf að hafa áhrif á virkni þeirra og samskipti við önnur börn. Ráðgjöfin felst í beinni íhlutun með barninu, samstarfi við foreldra og aðra sem að þjónustu við barnið og fjölskylduna koma.

Áhersla er lögð á mat á sjón- og sjónnýtingu, skynfæraörvun og áhrif sjónskerðingar á þroska barns. Ráðgjöf er veitt um val á leikföngum sem nýtast til sjón- og þroskaörvunar og aðferðir kenndar við rýmisskynjun og rötun (umferli). Metin er þörf fyrir gagnleg hjálpartæki og lýsingu. Þá fer fram undirbúningur fyrir leikskóla.