Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
Þjónustan felst í fræðslu og ráðgjöf til nemandans, starfsfólks framhaldsskóla og annarra þjónustuaðila, aðstandenda og samnemenda. Eftir þörfum er unnið í nánu samstarfi við aðra sem sinna sérfræðiþjónustu við nemendur hverju sinni. Ráðgjafar Miðstöðvarinnar leggja í upphafi mat á stöðu nemandans m.t.t. aðgengis í námi og námsefni. Í flestum tilfellum vinnur sérfræðingur Miðstöðvarinnar náið með námsráðgjafa.

Meðal þeirrar þjónustu sem Miðstöðin veitir framhaldsskólanemendum er:
  • athugun og mat á sjónnýtingu nemandans
  • fræðsla um sjónskerðingu og sjónnýtingu til starfsfólks skólans og samnemenda í samráði við nemandann
  • mat á hjálpartækjaþörf við nám
  • mat á leturstærð og leturgerð
  • útvegun og milliganga námsgagna á aðgengilegu formi
  • ráðgjöf og kennsla á hjálpartæki og forrit í tölvum í samvinnu við tölvuráðgjafa frá Miðstöðinni
  • fræðsla og aðstoð til nemandans til að styrkja og efla félagsfærni hans
  • aðstoð við glósutækni námstækni í samvinnu við námsráðgjafa skólans
  • fræðsla til starfsmanna skólans um uppsetningu aðgengilegra prófa
Við 19 - 20 ára aldur færast þeir notendur sem hafa verið í sérkennsluráðgjöf yfir á fullorðinssvið og heyra þá undir náms- og starfsráðgjöf hjá Miðstöðinni. Tengiliður/sérkennsluráðgjafi sér til þess að boða til skilafundar innanhúss með þeim ráðgjöfum frá Miðstöðinni sem við á, ásamt notanda og eru aðstandendur eða persónulegur talsmaður velkomin á fundinn. Á þeim fundi er farið yfir mál notanda, hvernig gengið hefur og fyrirkomulagið á fullorðinssviði. Þá er þetta kjörið tækifæri til að fræðast um þá margvíslegu þjónustu sem Miðstöðin býður upp á fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu á fullorðinsaldri.