Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Grunnskóli

Þjónustan felst í fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla og annarra þjónustuaðila, aðstandenda og samnemenda. Eftir þörfum er unnið í nánu samstarfi við aðra sem sinna sérfræðiþjónustu við nemendur hverju sinni.

Ráðgjafar Miðstöðvarinnar leggja mat á stöðu nemandans í náminu og innan skólans m.t.t. sjónskerðingarinnar, að undangenginni athugun á sjón og sjónnýtingu á Miðstöðinni. Á grundvelli þessa mats er unnin áætlun í samstarfi við skólann, nemandann og aðstandendur hans. Framkvæmd áætlunarinnar er síðan á ábyrgð viðkomandi skóla, en ráðgjafar Miðstöðvarinnar koma að málum eftir þörfum hverju sinni. Innihald áætlunarinnar fer eftir þörfum nemandans stöðu hans í náminu og í skólanum. Til að óska eftir þjónustu við grunnskólanemendur er haft samband við tengilið nemandans hjá Miðstöðinni.

Meðal þeirrar þjónustu sem Miðstöðin veitir vegna grunnskólanemenda er:
 • mat á sjónnýtingu nemanda og stöðu hans í skólanum
 • fræðsla um sjónskerðingu og sjónnýtingu
 • athugun á umhverfi og aðgengi m.t.t. kennslu og sjálfstæðis nemanda
 • mat á hjálpartækjaþörf við nám
 • aðlögun á námskrá eða þátttaka í gerð einstaklingsnámskráa
 • aðstoð við val á námsefni og mat á leturstærð og leturgerð
 • innlögn punktaleturs og ráðgjöf til kennara og aðstandenda
 • ráðgjöf og kennsla á hjálpartæki og forrit í tölvum í samvinnu við tölvuráðgjafa Miðstöðvarinnar
 • ráðgjöf til kennara og nemenda um rafræna kennsluhætti
 • fræðsla og aðstoð við að styrkja félagsfærni og félagsstöðu nemandans
 • hvernig nemandinn getur orðið sjálfbjarga í daglegum athöfnum (ADL)
 • aðstoða við undirbúning nemanda á milli skólastiga
 • fræðsla um kennsluaðferðir sem nýtast blindum, sjónskertum og nemendum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu