Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar
Á Miðstöðinni eru starfandi umferliskennarar. Notendur Miðstöðvarinnar geta óskað eftir umferliskennslu og ráðgjöf sér að kostnaðarlausu.

Með umferli er lögð áhersla á stuðning til sjálfstæðis og hvatningu til virkni. Umferliskennarar annast kennslu og fræðslu um umferli og áttun og veita ráðgjöf um aðgengismál.

Hvað er umferli ?

Með umferli er átt við skilning einstaklings á umhverfi sínu. Lögð er áhersla á aðferðir og leiðir við að komast frá einum stað til annars innandyra sem utan. Áttun er lykilatriði í umferli og segir til um núverandi staðsetningu og hvert skuli fara. Kennileiti í umhverfinu eru mikilvæg en þau geta verið áþreifanleg eða sjónræn og auðvelda bæði áttun og rötun.

Markmið með umferliskennslu
 • Þjálfun í notkun skynfæra
 • Efling líkams-, rýmis - og umhverfisvitundar
 • Hugtakaþjálfun
 • Rötun og áttun
 • Minnisþjálfun
 • Kennsla í notkun hvíta stafsins og annara hjálpartækja
 • Kortalestur
 • Að nýta kennileiti
 • Að nýta leiðarlínur og áherslusvæði
 • Leiðsögutækni


Hvernig fer umferðiskennsla fram

 • Lagt er mat á þörf fyrir kennslu og þjálfun. Gerð er kennsluáætlun í samræmi við einstaklinginn.
 • Búseta, þjónustuíbúðir, hjúkrunarheimili, hvíldarinnlagnir, félagsstarf, dagvistun
 • Umferliskennsla getur farið fram á heimaslóðum, í skólum, vinnustað eða þar sem einstaklingurinn hefur þörf fyrir kennslu og þjálfun
 • Kenndar eru aðferðir og leiðir við að öðlast öryggi og traust í umhverfinu
 • Lögð er áhersla á samstarf við aðra þá sem koma að þjónustu við einstaklinginn

Aðgengi

Gott aðgengi hefur áhrif á sjálfstæði einstaklingsins við að ferðast um. Umferliskennarar leiðbeina um aðgengismál á heimilum, skólum, vinnustöðum og annarsstaðar út frá þörfum blindra og sjónskertra einstaklinga.

Hjálpartæki í umferliskennslu:

 • Hvíti stafurinn
 • Sjónaukar
 • Staðsetningartæki, skynjarar og áttavitar
 • Upphleypt kort
 • Kennileiti

Hvernig er leitað til umferliskennara?

Notendur Miðstöðvarinnar og aðstandendur þeirra geta pantað tíma eða haft samband við umferliskennara Miðstöðvarinnar í síma 545-5800.

Bæklingur um umferli og áttun (PDF)