Venjulegt útlit Breyta stillingum

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Beint á efnisyfirlit síðunnar

Tölvuráðgjöf

Miðstöðin annast úthlutun á tölvutengdum hjálpartækjum sem blindir, sjónskertir og einstaklingar með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu geta nýtt sér til daglegra verka, starfs, náms og afþreyingar.  Bæði er um vélbúnað og hugbúnað að ræða, sem bætast þá við tölvu eða önnur almenn heimilistæki sem fyrir eru. 

Sjónskertir sem ekki geta nýtt hefðbundna stækkun í tölvum geta t.d. fengið úthlutað stækkunarforriti sem stækkar það sem er á skjánum allt að 32 sinnum, auk þess að bjóða upp á fjölbreytilega litamöguleika.  Blindir geta með sama hætti fengið úthlutað skjálestrarbúnaði, en hann les það sem er á skjánum og er hægt að velja um mismunandi raddir og leshraða.  Þeir sem lesa punktaletur geta jafnframt fengið úthlutað punktaletursskjá og er þá um að ræða tæki sem gerir breytir rituðu efni af hefðbundnum skjá yfir í punktaletursform.

Til að geta fengið slíkum búnaði úthlutað fer fram mat á getu, aðstæðum og þörfum notandans og er slíkt mat unnið af ráðgjöfum stofnunarinnar. Þegar úthlutun hefur verið staðfest sendir ráðgjafinn beiðni á tölvufræðing Miðstöðvarinnar sem pantar hlutinn, setur hann upp í tölvu notandans og tryggir að hann virki. Að því loknu kennir ráðgjafinn notandanum á búnaðinn.

Notandinn þarf að hafa aðgang að tölvu til að geta nýtt sér tölvutengdu hjálpartækin. Þar sem hjálpartækin virka ekki við hvaða aðstæður sem er, þá ráðleggur tölvufræðingur Miðstöðvarinnar þeim sem þess óska um kaup og uppsetningu á almennum tölvubúnaði.